Um Havarí
Havarí er dag rekið af, Berglindi Häsler, ekkju Svavars Péturs. Havarí var stofnað árið 2009 af hjónunum Berglind og Svavari, hljómsveitinni Hjálmum, Guðmundi Kristni Jónssyni og Maríu Rut Reynisdóttur og Gogo Yoko streymisveitu sem ekki er lengur starfandi. Við fengum tímabundið húsnæði í Austurstræti með það að markmiði að hafa gaman og skapa vettvang um tónlist og myndlist. Þar voru allskonar menningartengd verkefni töfruð fram af grasrót þess tíma. Og vá hvað það var gaman!
Hér eru nokkrar mjög lélegar símamyndir sem ná þó að fanga ögn af þeirri óviðjafnanlegu stemningu sem gjarnan var í Austurstrætinu.
Þegar hópurinn missti rýmið árið 2011 héldu hjónin Berglind og Svavar nafninu sem varð svo yfirheiti yfir öll þau fjölmörgu verkefni og ævintýri sem þau tóku sér fyrir hendur. Það stærsta var Havarí á Karlsstöðum í Berufirði á árunum 2014-2021.
Hjónin keyptu sér sumsé sveitabæ í Berufirði í mikilli niðurníðslu og gerðu hann upp. Þau fengu lífræna vottun á jörðina og ræktuðu grænmeti og prófuðu sig áfram með snakkframleiðslu. Þau ráku líka hostel, kaffihús og tónleikastað og meðfram þessu var tónlistin, veggspjöldin, Bulsurnar og fleira og fleira.
Havarí hefur þannig alltaf verið yfirheiti yfir fjölbreytt verkefni sem stundum eru mörg og stundum fá.
Svavar Pétur lést úr krabbameini árið 2022 en minningin lifir.