Minningarsjóður Svavars Péturs Eysteinssonar
Minningarsjóður Svavars Péturs var stofnaður með það að leiðarljósi að halda minningu einstaks listamanns á lofti. Svavar Pétur lést úr krabbameini 29. september árið 2022. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló. Hann var fjölhæfur og framtakssamur tónlistarmaður, myndlistarmaður, hönnuður, matvælaframleiðandi, frumkvöðull og bóndi sem veitti fjölda fólks innblástur með verkum sínum og vinnu, hugmyndauðgi, kjarki og þori.
Markmið sjóðsins er að styðja við listamenn og frumkvöðla sem vinna í sama anda og Svavar Pétur. Opið var fyrir umsóknir 1. - 29. febrúar 2024.
Úthlutað verður 1 milljón króna á afmælisdegi Svavars Péturs, 26. apríl 2024
Þau sem vilja styðja við sjóðinn er bent á að millifæra á reikning: 0133-26-9936 kt. 650423-2830.
Stjórn sjóðsins vann ötullega að fjármögnun sjóðsins á árunum 2022 og 2023 með fjölmörgum verkefnum. Og erum við endalaust þakklát öllum þeim sem hafa lagt fram vinnu í þágu sjóðsins, lagt til fé og / eða tekið þátt í öllum þessum verkefnum.
Í samstarfi við 66°Norður var gerð flíspeysuútgáfa af Haustpeysu Prinsins. Peysan var hönnuð af Svavari Pétri í samstarfi við 66°Norður, og var ágóði af sölu tileinkaður sjóðnum.
Haustpeysa Prins Póló í samstarfi við 66°norður
Stjórn sjóðsins stóð fyrir Hátíð hirðarinnar: Afmælistónleikum Prins Póló, þar sem fjölmargir tónlistarmenn komu fram og gáfu vinnu sína fyrir málstaðinn.
Þá var myndaður Hlaupahópur Hirðarinnar þar sem nokkrir galvaskir hlauparar hlupu og söfnuðu áheitum í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Hér má sjá aðeins nokkra:
Stjórn sjóðsins skipa:
Berglind Häsler, stjórnarformaður
Elsa Þórey Eysteinsdóttir, framkvæmdastjóri
Benedikt Hermann Hermannsson
Björn Kristjánsson
Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir