Opnað fyrir umsóknir í Minningarsjóð Svavars Péturs Eysteinssonar

Opnað fyrir umsóknir í Minningarsjóð Svavars Péturs Eysteinssonar

Minningarsjóður Svavars Péturs Eysteinssonar opnar fyrir umsóknir í annað sinn
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Minningarsjóð Svavars Péturs Eysteinssonar þriðjudaginn 25. febrúar. Þetta er í annað sinn sem veitt verður styrkur úr sjóðnum. Tekið verður við umsóknum til 31. mars. Einni milljón króna verður veitt til eins verkefnis á afmælisdegi Svavars Péturs, 26. apríl og er allt skapandi fólk með skemmtilegar hugmyndir hvatt til að sækja um. 

Í minningu einstaks listamanns
Minningarsjóður Svavars Péturs var stofnaður með það að leiðarljósi að halda minningu einstaks listamanns á lofti. Svavar Pétur lést úr krabbameini 29. september árið 2022, aðeins 46 ára gamall. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló. Hann var fjölhæfur og framtakssamur tónlistarmaður, hönnuður, myndlistarmaður, matvælaframleiðandi, frumkvöðull og bóndi sem veitti fjölda fólks innblástur með verkum sínum og vinnu, hugmyndauðgi, kjarki og þori. 


Úthlutun 2024
Ægir Sindri Bjarnason fékk fyrsta styrkinn úr Minningarsjóði Svavars Péturs Eysteinssonar, sem var veittur á Hammondhátíð á Djúpavogi þann 26. apríl, afmælisdegi Svavars Péturs. Ægir Sindri sótti um styrk til reksturs á tónleikarýminu R6013 við Ingólfsstræti, þar sem ólíkum tónlistarstefnum er gert hátt undir höfði. Stjórn sjóðsins studdi verkefnið með stolti enda spennandi frumkvöðlastarf með skýrri sýn um að efla grasrót tónlistarstarfs og sameina tónlistarfólk af öllum kynslóðum.


Markmið sjóðsins
Markmið sjóðsins er að styðja við listamenn og frumkvöðla sem vinna í sama anda og Svavar Pétur.  
Stjórn sjóðsins hefur unnið ötullega að fjármögnun sjóðsins á undanförnum árum, meðal annars með samstarfi við 66°Norður við gerð flíspeysuútgáfu af Haustpeysu Prinsins. Peysan var hönnuð af Svavari Pétri í samstarfi við 66°Norður. Stjórn Minningarsjóðsins stóð fyrir Hátíð hirðarinnar: Afmælistónleikum Prins Póló. Þar komu fram fjölmargir tónlistarmenn sem gáfu vinnu sína fyrir málstaðinn. Þá var myndaður Hlaupahópur Hirðarinnar þar sem nokkrir galvaskir hlauparar hafa hlaupið og safnað áheitum fyrir fyrir málstaðinn í Reykjavíkurmaraþoni. 


Sótt er um hér.


Við erum afar þakklát öllum þeim sem hafa lagt fram vinnu í þágu sjóðsins, lagt til fé og/eða tekið þátt í öllum þessum verkefnum. 
Við erum þegar byrjuð að leggja drög að stóru fjármögnunarverkefni fyrir sjóðinn í ár sem við hlökkum til að segja betur frá síðar. Og að sjálfsögðu verður aftur hlaupið fyrir Minningarsjóðinn í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar.


Stjórn sjóðsins skipa:
Berglind Häsler, stjórnarformaður
Elsa Þórey Eysteinsdóttir, framkvæmdastjóri
Benedikt Hermann Hermannsson
Björn Kristjánsson
Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir
Back to blog