Havarí x Mottumars

Havarí x Mottumars

Mottumarssokkarnir í ár eru hannaðir af ekkju Svavars Péturs og eiganda Havarí, Berglindi Häsler í samstarfi við Björn Þór Björnsson. Björn hefur undanfarin ár tekið að sér að viðhalda safni myndrænna sköpunarverka sem Svavar Pétur, Prins Póló, skildi eftir sig. 

Svavar Pétur lést úr krabbameini árið 2022. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló. Hann var fjölhæfur og framtakssamur tónlistarmaður, myndlistarmaður, hönnuður, matvælaframleiðandi, frumkvöðull og bóndi.

„Ef það sem við þurftum að ganga í gegnum getur orðið til þess að aðstoða fólk eða veitt innblástur. Ef við getum lagt eitthvað til; það er drifkrafturinn í þessu hjá mér. Afstaða Svavars til lífsins var líka að við megum bara reyna að hafa eins gaman og við mögulega getum þrátt fyrir að lífið hendi í mann allskonar verkefnum“ segir Berglind.

„Berglind opnaði fyrir okkur upprunaleg hönnunarskjöl Svavars, það er sannkallaður stafrænn fjársjóður“ segir Björn. „Sem dæmi eru aðeins litir sem Svavar skilgreindi og nefndi sjálfur notaðir við hönnun sokkanna í ár.“

„Það lá beinast við að byggja hönnunina á kórónunni sem var hans helsta og íkonískasta tákn. Við reyndum svo að finna þá liti sem pössuðu best við Mottumarslitina“ segir Björn. Mottumarssokkarnir eru villtir í útliti en á sama tíma vandaðir. Það er annað atriði sem á sér samsvörun í höfundarverki Svavars, þar sem ærlegt pönk rann saman við ísmeygilega fágun.

Eins og gjarnan hjá Prins Póló sjálfum var næstum óheft sköpunargleði við völd og því var ákveðið að hanna aukasokka að þessu sinni. „Það var bara ekki hægt að halda aftur af stemningunni og erfitt að stoppa,“ segir Berglind.

Sérstaklega er mælt með því að fólk pari saman mismunandi Mottumarssokka, og gangi stolt í ósamstæðum sokkum í minningu þess góða drengs, Svavars Péturs Eysteinssonar, Prins Póló.

Hér er hægt að kaupa viðhafnar sokka og fá nánari upplýsingar um átakið

Back to blog